132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum er hægt að segja ýmislegt með þögninni, látbragðinu eða með því að gefa í skyn. Hér var vísað til þess mjög afdráttarlaust að samstaða væri um þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fyrir þingið. Iðnaðarnefnd hafi staðið einhuga að breytingunum. Ég er að vekja athygli á að við sem höfum staðið í fararbroddi í umræðunni um umhverfismál, stóriðjumál og þar á meðal þetta frumvarp erum andvíg þessu máli og höfum sett fram rökstudda gagnrýni á það. Við höfum hins vegar óskað eftir að þær tæknilegu breytingar sem verið er að gera á frumvarpinu nú eða leggja til sé nokkuð sem við fáum ráðrúm til að skoða. Við erum að biðja um svigrúm til þess. Við höfum ítrekað sett fram þá ósk að það svigrúm verði veitt fram yfir helgina og umræðunni frestað. Það var þetta, hv. þingmaður, sem ég átti við.