133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:42]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mikil og skörugleg ræða. Það er einungis tvennt sem mig langar að forvitnast um hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, annars vegar það sem greip ekki nægilega vel athygli mína, hann vitnaði í einhvern aðila með þeim orðum að allt væri til sölu fyrir rétt verð. Mig langar til að fá að vita í hvaða aðila hann vitnaði þarna.

Síðan er hitt, mig langar að fá svar við spurningu sem ég hef lagt fyrir aðra þingmenn í umræðunum og tel nauðsynlegt að þingheimur og þeir sem á okkur hlusta hafi vitneskju um hver skilningur ákveðinna þingmanna er. Spurningin er þessi: Telur hv. þingmaður að réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins skerðist ekki ef þetta frumvarp, Ríkisútvarpið ohf., verði að lögum?