133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:02]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Málefnalegt skal það vera. Áfram skal haldið. Hv. þingmaður talaði mikið um að sumir væru ekki jaðarmenn og sumir töluðu frá hjartanu á stundum en í önnur skipti ekki. Það er alveg óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann um hans eigin stöðu í sínum eigin flokki: Er hann jaðarmaður í flokknum? Talar hann frá hjartanu? Er hann lykilmaður? Eða er hv. þingmaður hættur að hafa þá skoðun að það beri að selja Ríkisútvarpið? Er hann jaðarmaður í því máli eða lykilmaður? Bara þannig að við áttum okkur á hugtakanotkun hv. þingmanns.

Í gær upplýsti hann okkur um það hvað hann á við með varaformanni. Þegar hann talar um varaformann á hann við yfirmann t.d. þingflokksformanns. Varaformaður er einhver maður sem ber að hlýða í einu og öllu innan flokksins enda hefur hv. þingmaður sýnt að þannig lítur hann á sinn varaformann. (Forseti hringir.)