135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

[11:00]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þessi svör. Það mundi gleðja mig mikið ef þau svör og þessi fyrirspurn mín yrðu til þess að augunum verði rennt yfir þessi lög og þá styrki sem skjólstæðingar Tryggingastofnunar eiga rétt á. Það segir sig sjálft, eins og dæmið um bílastyrkinn, að við verðum að fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu. Við getum ekki bara ákveðið að við ætlum að veita styrk sem einhvern tímann dugði til þess að kaupa bíl og svo gleymt því í mörg ár.

Við skoðun mína á þessum lögum sá ég að á margan hátt má taka til hendinni í þeim, skoða þau, uppfæra og laga. Það vakti t.d. mikla kátínu mína að prósentuborgun á spelkum er misjöfn. Mér vitanlega (Forseti hringir.) hafa þeir sem nota spelkur ekki notað þær sem tískuskraut heldur af nauðsyn og þess vegna finnst mér eðlilegt að (Forseti hringir.) þær verði allar borgaðar 100%.