139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:16]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að þora í andsvar en ég verð nú samt að svara einhverju.

Það er ekki hægt að réttlæta óréttlæti og óeðlilegan fjármagnsmarkað í dag vegna þess að hann var óréttlátur í hina áttina fyrir 60 árum. Það eru fráleit rök. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal er fjármálamaður og ætti að vita ýmislegt um fjármálamarkaði. Hann veit það jafn vel og ég að fjármálamarkaður á Íslandi hefur aldrei starfað með eðlilegum hætti. Það yrði allra hagur, hv. þingmaður, það yrði hagur fjárfesta og fjármagnseigenda og hagur lántakenda ef hér væri eðlilegur fjármagnsmarkaður. Það er það sem við eigum að stefna að í framtíðinni. Það er ekki verið að gera það með þessu frumvarpi. Það er ekki verið að gera það með áframhaldi verðtryggingar. Það er ekki verið að gera það með þeirri framtíðarsýn sem þessi ríkisstjórn hefur í efnahagsmálum því að þar er fyrirhugað að halda áfram á sömu braut og var fyrir hrunið, að fleyta krónunni. Og hvað svo? Ég bara spyr.