140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:26]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég held að þessi áætlun hjá hæstv. innanríkisráðherra sé mjög metnaðarfull og nái vel utan um verkefnið. Við þurfum hins vegar að tryggja að það sé afl til að fylgja því eftir og við náum því á mjög skömmum tíma að búa svo um hnúta að landsbyggðin búi ekki bara við viðunandi aðstæður hvað þetta varðar heldur fullnægjandi og sem komi til móts við, eins og við sjáum það fyrir, þær stökkbreytingar sem geta orðið í þessari þjónustu. Á síðustu tíu árum hafa náttúrlega orðið gríðarlegar framfarir í þessu og það sem við töldum einu sinni vera boðlega háhraðatengingu þykir okkur ekki ná nokkru máli í dag, framþróunin hefur orðið svo ör.

Um leið sjáum við hvernig fólk úti um allt Ísland, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, hefur nýtt sér möguleika tækninnar og netsins til að mennta sig, stofna fyrirtæki og fara út í alls konar þjónustu. Í ferðaþjónustunni er netið og möguleikar háhraðatengingarinnar nýttir til hins ýtrasta, sérstaklega úti á landi þar sem fólk er fjarri hinum stærri mörkuðum á suðvesturhorninu. Mörg hundruð Íslendingar ef ekki fleiri en þúsund hafa á allra seinustu árum sótt sér framhaldsskóla- og háskólamenntun í gegnum fjarnám. Það er ekkert annað en bylting fyrir landsbyggðina að fólk þurfi ekki að rífa sig upp og flytja búferlum til að sækja sér menntun og þannig verður kannski ekki af því.

Þess vegna vildi ég ítreka að ljósleiðarastofnnetshugmyndin sem hér er unnið út frá virðist vera mjög öflug leið til að mæta þessu öllu. Við þurfum að búa svo um hnúta að dreifbýlustu og fámennustu svæðin þar sem er lengst á milli íbúa og bæja fái stuðning, fjárhagslegan stuðning, sveitarfélögin séu ekki skilin eftir, eins og ég get talið upp mörg dæmi um, þannig að íbúarnir búi svo sannarlega ekki við skerta aðstöðu (Forseti hringir.) gagnvart þeim sem búa í þéttbýli, eins og staðan er í dag þrátt fyrir allt.