140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[16:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki að hann geti dæmt að þeim hætti einfaldlega vegna þess að ég tel að þegar á heildina er litið náist besta niðurstaðan ekki þannig fram. Besta niðurstaðan næst þannig fram, tel ég vera, hvað varðar hagsmuni barnsins, að foreldrar þess verði sáttir. Það verður ekki gert með dómsorði einu. Þótt dómari komist að þessari niðurstöðu er ekki þar með sagt að hagsmunir barnsins séu tryggðir. Þeir eru langbest tryggðir ef okkur tekst að aðstoða fólk sem á í harðvítugum deilum, og, nota bene, við erum fyrst og fremst að tala um mál þar sem mjög harðvítugar deilur ríkja — þar tel ég að við eigum að leggja okkar af mörkum sem samfélag til að hjálpa foreldrunum að ná sátt. Ég tel að sú aðferð að láta dómara um að úrskurða sé ekki heppilegust, leiði ekki til bestu niðurstöðunnar.