141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vissi að ég kæmi ekki að tómum kofanum hjá hv. þingmanni hvað varðar þessi atriði og í allri umræðunni þá gleymast oft nákvæmlega svona sögur eins og var farið yfir hérna. Við það að virkja í Þjórsá hefur orðið til miklu stærra búsvæði fyrir laxastofnana sem hefur orðið til þess að þeir hafa stækkað og veiði hefur aukist. Þar er svo sannarlega hægt að halda því fram að virkjanir hafi alla vega leitt til meira lífs í ánum þó svo ég geti nú kannski ekki haldið því fram að það sé fjölbreyttara.

Mér finnst þetta skynsamleg nálgun hjá hv. þingmanni með þessar tvær virkjanir, Holta- og Hvammsvirkjun. Þær ógna á engan hátt lífríkinu og það er jafnframt skynsamlegt að geyma Urriðafossvirkjun ef það leikur minnsti grunur á því að þar sé einhver hætta á ferðum. Reyndar er ég, Veiðimálastofnun og sérfræðingar þeirrar skoðunar að það hafi farið fram, og muni fara fram, gríðarlega miklar og góðar rannsóknir á því svæði sem muni leiða til þess að það verði hverfandi hætta á því að ganga laxastofna skerðist.

Mig langar að fylgja því eftir sem ég spurði hv. þingmann að áðan og biðja hann um að fara aðeins yfir sögu rannsókna á laxastofnunum, þær hættur sem gætu skapast (Forseti hringir.) og það sem þeir sem hafa lagst á móti virkjuninni (Forseti hringir.) tína helst fram.