141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans. Það má segja að efni ræðunnar hafi komið fram í því orði sem hann hóf hana á: heimóttarleg, hann sagði að við værum oft ansi heimóttarleg í hugsunarhætti.

Ég ætla að nota tækifærið og rifja upp þegar ég tók þátt í því þegar verið var að svara öllu því spurningaflóði sem kom frá Evrópusambandinu í upphafi aðildarumsóknarferlisins. Ég man eftir því hvað var áhugavert og raunar skemmtilegt fyrir mann að sjá svörin sem komu um orkunýtingu hér á landi og hvað við stóðum okkur vel í samanburði við þau lönd sem tilheyra Evrópusambandinu. Ég man líka eftir því að það var ekki alveg jafnskemmtilegt að lesa kaflann um fjármálamarkaðinn hér. En við stóðum okkur greinilega vel hvað orkunýtingu varðaði.

Þingmaðurinn talaði í andsvörum um mikilvægi þess að ná sátt. Telur hv. þingmaður að ágreiningurinn innan þings snúist fyrst og fremst um þær breytingar sem voru gerðar þegar sex vatnsaflsvirkjanir voru færðar úr nýtingarflokki yfir í biðflokk? Eða snýst hann líka um þá virkjunarkosti sem færðir voru úr biðflokki, eins og verkefnisstjórnin gerði tillögu um, yfir í verndarflokk?