141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir svörin. Ég velti fyrir mér því sem kom fram í svörum þingmannsins um samkomulag. Þegar maður les til dæmis nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar verð ég að viðurkenna að ég get ekki fundið gífurlega mikla ánægju hjá meiri hlutanum með þá tillögu sem lögð er til. Það getur verið að sú tillaga sem meiri hlutinn leggur til endurspegli ákveðna málamiðlun sjónarmiða vegna þess að þar eru gefnir eftir ákveðnir hlutir, sérstaklega þeir sem tengjast jarðvarmavirkjununum eins og hv. þingmaður nefndi. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp er að á bls. 10 í álitinu les maður að leiðarspurningin sem meiri hlutinn vill nálgast sé sú hversu lítið við komumst af með að virkja á hverju tímaskeiði. Það virðist vera mjög takmarkaður áhugi á því að virkja þó að hér sé raunar lagt til að ákveðnir virkjunarkostir fari í nýtingarflokk.

Þess vegna spurði ég áðan, varðandi það að auka sáttina innan þings, hvort ágreiningurinn snerist fyrst og fremst um þá virkjunarkosti sem hafa verið færðir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk eða hvort við séum líka að tala um þá kosti sem voru færðir úr bið yfir í verndarflokk. Ég hef tekið eftir því í umræðunni undanfarna daga að það hefur ekki verið mikið rætt um að gerðar hafa verið mun meiri breytingar á þeim tillögum sem komu frá verkefnisstjórninni og endurspegla að hér eru samfélagssjónarmið undir en líka pólitísk sjónarmið. Fókusinn hefur fyrst og fremst verið á það sem er í gangi hér innan lands (Forseti hringir.) en alls ekki eins og hv. þingmaður var að velta fyrir sér hvaða hlutverk við spilum (Forseti hringir.) í heildarorkuframleiðslu í heiminum.