141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

sjúkratryggingar o.fl.

494. mál
[20:40]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta eru tvær greinar. Sú fyrri breytir gildistökuákvæðinu þannig að lögin öðlist gildi 4. maí 2013 og sú síðari kveður á um að lögin öðlist þegar gildi.

Forsaga málsins er sú að þann 1. júní sl. samþykkti Alþingi frumvarp velferðarráðherra um breytingu á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði og fleiri atriðum. Þá var kveðið á um að nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja tæki gildi 1. október sl. En fljótlega eftir að lögin voru samþykkt kom í ljós að gildistökutíminn gæti ekki staðist og fresta þyrfti gildistökunni til 1. janúar 2013 og flutti velferðarráðherra frumvarp þar að lútandi.

Hv. velferðarnefnd afgreiddi frumvarpið óbreytt, þ.e. með gildistöku 1. janúar 2013, enda hafði komið fram á fundum nefndarinnar með fulltrúum velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að dagsetningin væri raunhæf og vert að stefna að henni þó svo að ljóst væri að menn þyrftu að hafa hraðar hendur við undirbúning. Taldi nefndin sig ekki hafa fullnægjandi forsendur til að leggja til frekari frestun á gildistöku laganna.

Fljótlega eftir að Alþingi samþykkti síðara frumvarp hæstv. velferðarráðherra komu fram áhyggjur lyfsala um að ekki væri raunhæft að stefna að dagsetningunni 1. janúar 2013. Nefndin kallaði til sín gesti út af þessu máli, bæði ráðuneytið, Sjúkratryggingar og fulltrúa lyfsala. Í kjölfar þess fundar þótti nefndinni ljóst að ekki væri raunhæft að kerfið tæki gildi 1. janúar 2013 nema til félli óþarfa viðbótarkostnaður og mikið óhagræði fyrir lyfjakaupendur. Nefndin óskaði þá eftir raunhæfri áætlun um innleiðingu nýs kerfis og samþykkis þeirra sem að innleiðingunni ættu að standa á áætluninni. Þessi áætlun barst nefndinni og var samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands, Lyfjastofnun, lyfjagreiðslunefnd, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda, EMR/TMS, Advania og Frumtaka. Þessi áætlun felur í sér gangsetningu nýja greiðsluþátttökukerfisins helgina 4.–5. maí 2013.

Ástæðan fyrir því að 4. maí er valinn sem ný dagsetning á gildistöku laganna er sú að lögð var áhersla á að kerfið yrði gangsett um helgi og að það yrði ekki of nálægt sumarleyfistíma. Nefndin féllst á þessi rök enda stóðu allir sem hlut eiga að máli — fyrir utan að sjálfsögðu lyfjakaupendur, sem fá þá nýtt kerfi síðar í gang — að þessu samkomulagi.

Nefndin leggur ríka áherslu á að unnið verði ötullega að innleiðingu nýs kerfis og minnir á að lögin voru samþykkt 1. júní sl. Ýmsir nefndarmenn í hv. velferðarnefnd hafa lýst yfir mikilli óánægju með seinagang og lélegar upplýsingar um þarfir þeirra sem eiga að innleiða kerfið. Við leggjum því ríka áherslu á að aðilar sem að þessu standa taki lög frá Alþingi alvarlega og að af innleiðingu verði í samræmi við frumvarp þetta 4. maí 2013.

Hv. velferðarnefnd hefur þegar fjallað um efni frumvarpsins vegna athugasemda sem bárust eftir að lögin voru samþykkt í september sl. Því er óþarfi að málið fari aftur til nefndarinnar og legg ég til að því verði vísað til 2. umr.