145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég veit og hef heyrt að forseti hefur talað skýrt um það að hann vilji halda þessum fundi áfram til kl. 13 þegar fjármálaráðherra kemur í hús til að útskýra fyrir forsvarsmönnum þingflokka á þingi hvað hann ætlar sér með þetta frumvarp um stofnun félags til að ráðstafa eignum úr þrotabúum gömlu bankanna. Það hef ég heyrt.

Ég veit líka að hæstv. forseti er sanngjarn og raunsær maður oft og tíðum og hlýtur að gera sér grein fyrir því að botninn úr þessari 2. umr. um fjárlög er farinn. Það er enginn botn í þessari umræðu lengur. Frumvarpið sem var lagt fram í gær er af þeirri stærðargráðu að þingmenn verða í fyrsta lagi að fá að kynna sér það áður en þeir hitta fjármálaráðherra, þeir verða að fá niðurstöðu af þeim fundi, hvert markmiðið sé með því, hvenær eigi að afgreiða það og hvernig eigi að koma því inn í fjárlagafrumvarpið og fjárlög þá næsta árs. Þangað til er (Forseti hringir.) tómt mál að tala um fjárlagafrumvarpið. Ég er bara að tala um rúman klukkutíma, virðulegur forseti, og ég óska eftir því að þessum fundi verði frestað þar til úr þessu fæst skorið.