145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hún var svo sannarlega um stóru línurnar sem menn hafa lýst eftir að verði talað um hér. Hv. þingmaður staldraði við þá staðreynd að við höfum haldið því fram í umræðunum, og ég heyrði ekki betur en að hann væri sama sinnis, að því miður hefði enginn bati náðst í ríkisfjármálunum þrjú ár í röð ef við horfðum til forsendna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2016. Þetta er mín niðurstaða eftir að hafa skoðað þetta á ýmsa mælikvarða, t.d. með því að horfa á afkomu ríkisins á rekstrargrunni að frátöldum óreglulegum liðum, þá er það því miður þannig að afkoma ríkisins er ekkert að batna árin 2014, 2015 og 2016.

Það kom athyglisvert svar hér við fyrirspurn frá hv. þm. Helga Hjörvar um sveifluleiðréttan frumjöfnuð ríkissjóðs, sem ég bendi hv. þingmanni á að athuga. Þar kemur fram að eftir stórstígan bata á árunum 2009–2013 batnar að vísu sveifluleiðréttur frumjöfnuður lítillega milli áranna 2013 og 2014. Þá er afgangur upp á 3,9%. En hvað stefnir í að verði niðurstaðan í ár? Afturför niður í 2,9% afgang. Hvað stefnir sveifluleiðréttur frumjöfnuður í árið 2016? Aftur afturför niður í 2,3% afgang. Ef þessi mælikvarði er til dæmis lagður á er afkoma ríkisins að versna. Sveifluleiðréttur frumjöfnuður er að minnka ár frá ári í höndum þessarar ríkisstjórnar.

Menn hugga sig við það að hinar opinberu skuldir séu að lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Auðvitað er það jákvætt í sjálfu sér, en meðan nafnverð skuldanna er ekkert greitt niður þarf að borga samt sem áður sömu nafnverðsfjárhæðir í vexti af þeim að teknu tilliti til vaxtastigs. Þetta er líka skammgóður vermir hjá hv. stjórnarliðum því að það er upplýst í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að nú þurfi að uppfæra áfallnar lífeyrisskuldbindingar ríkisins um (Forseti hringir.) 126,5 milljarða. Fjölmiðlar telja sig hafa upplýsingar (Forseti hringir.) um að þetta sé vanmat upp á 20–30 milljarða. Þá fara fyrir borð aftur 5–6% af vergri landsframleiðslu í verri skuldastöðu að teknu tilliti til lífeyrisskuldbindinga.