146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna heitis Einkaleyfastofunnar.

371. mál
[18:28]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heitis Einkaleyfastofunnar á þskj. 500, mál nr. 371. Með frumvarpinu er lagt til að heiti Einkaleyfastofunnar verði breytt í Hugverkastofuna. Jafnframt er lagt til að ákvæðum ýmissa sérlaga verði breytt með hliðsjón af þessari nafnbreytingu.

Einkaleyfastofan fer með málefni hugverkaréttinda á sviði iðnaðar á Íslandi. Hlutverk hennar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnuninni ber jafnframt að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Enn fremur ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.

Heitið Einkaleyfastofan gefur því ekki skýra mynd af starfsemi stofnunarinnar þar sem það vísar eingöngu til einnar tegundar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Með hliðsjón af hlutverki stofnunarinnar hefur heitið of þrönga skírskotun miðað við raunverulega starfsemi hennar. Þá getur heiti Einkaleyfastofunnar verið villandi í augum viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila þar sem það gefur til kynna að stofnunin láti sig einungis varða málefni einkaleyfa þrátt fyrir að starfsemi og ábyrgðarsvið hennar tengist hugverkaréttindum almennt. Telja verður mikilvægt að stofnun sem fer með þessi málefni tryggi að öllum fagsviðum sé gert jafn hátt undir höfði og að ekki komi fram í heiti hennar sérstök áhersla á eitt fagsvið umfram annað.

Nafnbreytingin er jafnframt í samræmi við markmið sem sett voru fram í hugverkastefnu sem þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti árið 2016 undir heitinu „Hugverkastefna 2016–2022, hugverkaréttindi sem viðskiptatæki og verðmæti“. Markmið stefnunnar er hugverkadrifið Ísland árið 2022 og sú framtíðarsýn er sett fram í stefnunni ásamt því að veita upplýsingar um réttindin, mikilvægi þeirra og mögulegar verndarleiðir og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.

Frumvarpið hefur ekki áhrif á stjórnsýslu stofnunarinnar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.