150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

styrkir til nýsköpunar.

[14:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur að eigin sögn lagt mikla áherslu á nýsköpun, tækniþróun og sprotafyrirtæki. Hins vegar samræmist sú sögn ekki fyrirliggjandi gögnum. Hlutfall samþykktra umsókna hjá Tækniþróunarsjóði hefur farið lækkandi. Fylgnilínan var um 40% árið 2004 en hún hefur lækkað stöðugt og úthlutanir 2019 voru aðeins 10% af umsóknum. Þetta er þrátt fyrir að sjóðurinn hafi verið næstum tvöfaldaður 2016 en hann hefur reyndar farið minnkandi síðan þá og á að dragast saman á komandi árum samkvæmt svokölluðum metnaðarfullum áætlunum sömu ríkisstjórnar. Þegar nánar er að gáð fara styrkirnir í auknum mæli til færri og stærri aðila á kostnað smærri sprotafyrirtækja. Aðeins 19 styrkir í hverjum flokki voru veittir árið 2018 en vitað er að mun fleiri verkefni hafa fengið hæstu einkunn matsaðila, bæði þá og í fyrra. Það virðist því hendingu háð hvort góð verkefni hljóti styrk en miðað við það fjármagn sem sjóðurinn hefur úr að spila er von að menn spyrji sig hverjum sé ætlað að njóta góðs af.

Ísland hefur náð ágætisárangri í grunnrannsóknum en okkur gengur verr en æskilegt er að koma þróuninni á hærra tækniþróunarstig og loks á markað. Mig grunar að það hafi eitthvað með það að gera að sprotafyrirtæki og fyrirtæki í nýsköpun hafi kannski ekki jafn sterkt bakland hjá ríkinu og t.d. stórútgerðir.

Ríkisstjórnin hefur slegið um sig með þessu en ég verð að spyrja hæstv. nýsköpunarráðherra:

Hefur ríkisstjórnin sett einhvern kvóta á nýsköpun og sprotafyrirtæki? Hvort lítur ráðherra svo á að stuðningur við stærri eða minni fyrirtæki sé líklegri til að skila árangri? Hefur ráðherra skýringu á samdrætti samþykktra umsókna? Samræmist það markmiðum um nýsköpun að tryggja ekki að þau verkefni sem hljóta hæstu einkunn matsaðila geti fengið viðeigandi styrki?