150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

styrkir til nýsköpunar.

[14:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ítreka aftur að þetta snýst um að horfa á heildarmyndina. Það snýst ekki um að lifa á fornri frægð að vilja stuðla að því að fyrirtæki hér sem verða stór og sterk verði áfram hér en fari ekki úr landi. Þá skiptir máli að vera samkeppnishæfur. Við erum með alls konar styrkleika hér á landi en við erum líka með ýmsar áskoranir hvað það varðar. Það er ekki að lifa á fornri frægð að regluverkið þróist með þróun nýsköpunarumhverfisins í heild sinni. Ég hafna alfarið þeim málflutningi að mögulega sé hvorki geta né vilji til að gera vel í nýsköpunarmálum. Ég hef ekki verið að framleiða neinar skýrslur. Með þverpólitískri nálgun höfum við með öllum helstu hagaðilum skilað af okkur nýsköpunarstefnu fyrir Ísland þar sem skýr sýn er á það hvert þetta samfélag stefnir þegar kemur að tækifærum í nýsköpun. Sú sýn er skýr og góð og það er í fyrsta sinn sem þetta samfélag hefur gert það. Það skiptir máli til að fólk gangi í takt og við höfum yfirsýn yfir það sem við erum að gera. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að halda áfram að framleiða skýrslur enda erum við að fara í markvissar aðgerðir til að stuðla enn frekar að frjóu og jákvæðu umhverfi fyrir nýsköpunargeirann á Íslandi af því að við eigum mikið undir honum.