150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:45]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Þegar við stöndum frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvernig við eigum að verja sameiginlegum fjármunum — við skulum tala um sameiginlega fjármuni 10–12 milljarða — þá skulum við velta því fyrir okkur hvernig það er skynsamlega gert. Ég man eftir því að fyrir svona tveimur, þremur áratugum hreykti þekktur stjórnmálamaður, áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum, sér af því að hann ætti mjög snjallan son sem stundaði háskólanám og tæki námslán sem báru þá enga vexti en hann þyrfti ekki á þeim peningum að halda vegna þess að pabbi og mamma sæju fyrir honum og hann tæki þessi námslán og keypti fyrir þau ríkisskuldabréf sem væru verðtryggð og bæru 5–6% vexti. Þetta væri fjármálasnilld — sem það var. En þetta er svipuð hugmynd. Það á sem sagt að veita þetta ungu fólki sem er í námi og þarf ekki sérstaklega á aðstoð að halda, t.d. börnum efnaðra foreldra. Þau velja þá að vinna ekki á sumrin, skella sér frekar — að vísu ekki til Tenerife, ég held að þau fari til Taílands, Japans, Nýja-Sjálands, Ástralíu, Brasilíu o.s.frv. og fá síðan tékkann frá ríkissjóði í formi ónýtts persónuafsláttar. Það eru akkúrat börn þeirra sem efnaðastir eru í þjóðfélaginu. Ég held að þeir sem eru að gæla við hugmyndir af þessu tagi ættu að velta því fyrir sér hvort þetta sé sú jafnaðarmennska sem við eigum að vera að berjast fyrir eða hvort ekki væri skynsamlegra að nota þessa 10–12 milljarða til að lækka neðsta skattþrepið enn frekar en gert hefur verið. Það kemur öllum en ekki síst láglaunafólki best.