150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er áreiðanlega rétt hjá þingmanninum að þetta er breytilegt. En það sem ég og þingmaðurinn þekkjum ágætlega er að sum sveitarfélög hafa valið að koma hluta af sínum skuldum í B-hlutafélög. Nærtækasta dæmið er sveitarfélagið Reykjavík sem er með mjög stóran hluta af sínum heildarrekstri í risastórum B-hlutafélögum. Þá langar mig að inna þingmanninn eftir því hvort fram hafi farið einhver umræða innan nefndarinnar um hvort það myndi skapa einhvers konar, eigum við að kalla það freistnivanda innan sveitarfélaga, þ.e. að þau reyni eftir megni að færa stærri hluta rekstrar yfir í B-hlutafélög til að halda sig innan þessara marka. Ég spyr hvort það væri ekki nær að halda sig áfram við það að vera með viðmiðið fyrir A- og B-hluta í einhverri tiltekinni prósentu en vera ekki að taka þetta svona í sundur eins og gert er ráð fyrir í tillögunni.