151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

greining leghálssýna.

[13:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í byrjun þessa árs fengum við fregnir af því að leghálssýni til rannsóknar á mögulegu krabbameini, tekin úr 2.000 konum, lægju óhreyfð og biðu rannsóknar í pappakössum inni í heilbrigðiskerfinu. 2.000 konur sem töldu sig varðar af íslensku heilbrigðiskerfi mættu samviskusamlega í leghálsskimun en annað kom á daginn. Heilbrigðisyfirvöld undir stjórn hæstv. heilbrigðisráðherra höfðu látið undir höfuð leggjast að ganga frá samningum um það hver skyldi nú rannsaka sýni þessara 2.000 kvenna. Tveggja ára ferli við yfirfærslu á skimunum á brjósta- og leghálskrabbameini hefur ekki gengið betur en svo að það gleymdist að finna út hver ætti að rannsaka sýni sem tekin eru.

Frá því að fyrstu fregnir af þessu dæmalausa klúðri bárust eru liðnar nokkrar vikur og hefur hæstv. heilbrigðisráðherra sagt eðlilegt að flutningur þjónustunnar frá Krabbameinsfélagi til Landspítala og heilsugæslu taki tíma. Ferlið hófst fyrir tveimur árum. Nú hafa borist fregnir af því að fyrstu 1.000 sýnin hafi sætt rannsókn á einhverri stofu í Danmörku sem íslenskum stjórnvöldum hugnast að semja tímabundið við. Ekki má semja við íslenskt rannsóknarfólk og nýta íslensk tæki Landspítala heldur skal senda sýnin til Danmerkur en þó ekki öll því að á daginn hefur komið að sýnaglösin passa ekki öll hinum dönsku rannsakendum og því þarf fjöldi kvenna að mæta aftur í sýnatöku, eins gleðilegt og það nú er. Niðurstaðan úr þeim 1.000 sýnum sem tekin voru fyrir nokkrum mánuðum sýna að 150 konur þurfa frekari eftirfylgd. Þetta þýðir að frumubreytingar hafa greinst. Ekkert er vitað um hin 1.000 sýnin sem enn bíða í pappakössum heilbrigðiskerfisins.

Af þessum sökum vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra og biðja um einlæg og heiðarleg svör. Finnast henni þetta boðleg vinnubrögð? Telur hún það ásættanlegt að standa svona að málum við yfirfærslu lífsnauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu? Og loks: Hvers vegna má ekki nýta nýjustu tæki og rannsóknargetu og þekkingu starfsmanna íslenska heilbrigðiskerfisins?