151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

umræður um utanríkismál.

[14:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ég komi ekki úr stærsta þingflokknum hér á þingi get ég tekið undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um að það væri ágætt að hafa tímann í einhvers konar hlutfalli við stærð flokka og fylgja þingsköpum, en kannski ekki síst að umræðunni sé stýrt af þeim sem hafa virkilega áhuga á henni. Það er mikilvægt að gæði umræðunnar séu í samræmi við áhuga fólks og að því marki tek ég undir beiðnir sem hafa komið fram um að við leggjum meiri áherslu á alþjóðamál, utanríkismál, í þessum þingsal og jafnvel í þingnefndum. Það er stór heimur þarna úti. Við þurfum að vera miklu virkari í því að beita okkur fyrir aðkomu Íslands. Við höfum gert margt vel, ég er ekki að gagnrýna neinn núna, en horfum á þetta svolítið í víðu samhengi og reynum að gera aðeins betur. Ég held við viljum það öll. Við ættum öll að geta það en týnum okkur ekki endilega alltaf í einfaldari innanríkismálum vegna þess að þetta skiptir máli.