151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

NATO-þingið 2020.

500. mál
[19:19]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum aftur. Þessi ping-pong leikur gengur náttúrlega alltaf út á það að færa rök fyrir því að andstæðingurinn hafi fært sig upp á skaftið. Og já, við getum sagt að hann geri það meira að segja, bæti við einni herstöðinni eða hinir bæta við einni fjölmennari heræfingu. Einhverjir taka upp á að vera með skotæfingar innan 200 mílna lögsögu hjá hinum og hinir svara með því að fara alla leið inn á siglingaleiðir sem andstæðingurinn vill ekki eða hvaðeina. Það er þessi vítahringur sem ég er að tala um að þurfi að rjúfa. Ef það er engin formúla fyrir því þá þurfum við bara að finna hana vegna þess að þetta er óheilbrigt og getur leitt okkur lengra og lengra út í einhvers konar mýri, spennumýri sem við viljum ekki fara út í. Með kjarnorkuvopnin þekki ég fælingarmáttinn. Hann kemur í sjálfu sér ekki sjálfkrafa í veg fyrir að þau verði notuð og við vitum alveg hvað það þýðir ef þau verða einhvers staðar einhvern tíma notuð. Þá erum við komin á hættulegt stig. Það eru æ fleiri sem annaðhvort þróa þessi vopn með sér eða komast yfir þau. Og ég held að NATO-ríkin, jafnt sem önnur kjarnorkuveldi, verði að hlusta á vilja þjóða heims þegar þær eru orðnar kannski 150 sem hafa undirskrifað þennan samning og fullgilt hann. Við skulum bara sjá hvert tíminn leiðir okkur.