151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

NATO-þingið 2020.

500. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. ÍNATO (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski í samhengi hlutanna eins og rætt var fyrr í kvöld, í samhengi við loftslagsmálin og annað, bráðnun jökla. Hv. þingmaður kom inn á námuvinnslu. Það hefur verið talað um olíulindir, skipaleiðir, norðausturleiðina, norðvesturleiðina, beint yfir pólinn. Það myndast ákveðin spenna, allt þetta er að mynda ákveðna spennu í alþjóðasamskiptum. Verður það þannig að hægt verður að fara beint yfir pólinn eftir 2030, eins og við höfum heyrt í okkar nefnd sem vinnum að norðurslóðastefnunni? Það er eftir tíu ár. Þetta eru ótrúlega hraðar breytingar. Við höfum líka örugglega heyrt einhvern tímann, í okkar nefnd um norðurslóðastefnuna, ákveðna hræðslu við að þetta svæði, með siglingaleiðum svona norðarlega, verði eins konar minni útgáfa af Gula hafinu og því sem er að gerast þar í heimspólitíkinni. Þannig að þetta er ekki einfalt. En það er mikill vilji, finn ég, hjá framkvæmdastjóra NATO, Jens Stoltenberg, í hans máli á þeim fundum sem ég hef setið, til að reyna að halda þessari lágspennu. En við vitum líka að Bandaríkjamenn endurvirkjuðu flotadeildina í Norfolk sem einbeitir sér að Atlantshafinu og norðurhluta Norður-Atlantshafsins, svo hátt uppi. Og eins og hv. þingmaður kom inn á eru skip aftur farin að sjást í Barentshafinu, bandarísk. Bretar ræddu þetta töluvert á ársfundinum í nóvember og spurðust fyrir um þetta. Þannig að við sjáum það víða og þessi lönd eru að horfa á þetta svæði. En stærsta hræðslan held ég sé við kjarnorkukafbátana með kjarnorkuvopn, ég held að mesta hræðslan hjá NATO sé við þá.