152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög mikilvæg orð varðandi nýsköpun og stuðning við hana og tek undir hvert einasta orð. Það er svolítið sorglegt að þeir frumkvöðlar sem eru að gera hluti tengda heilbrigðistækni þurfi að sækja sér bæði hraðla, þ.e. þekkinguna, og fjármagnið erlendis af því það er lítið til af því hér heima.

En mig langar líka að tala við hv. þingmann um málefni sem þingmaðurinn nefndi, sem er aðgengi. Við höfum því miður sorglega verið minnt á það í þessari viku að það skiptir máli hvar fólk býr upp á það að geta fengið heilbrigðisþjónustu. Rétt eins og við sögðum hér áðan að það væri réttur eldra fólks að geta búið heima hjá sér sem lengst þá megum við ekki gleyma því að „heima hjá sér“ er ekki bara hér á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu heldur er það um allt land og oft á stöðum þar sem heilbrigðisþjónustan er kannski ekki upp á sömu fiska og gerist hér. Mig langaði að heyra aðeins frá hv. þingmanni hennar sýn á því hvernig við getum tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, jafnvel með nýtingu á tækni, hvar sem er á landinu.