152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að nefna þessa þingsályktunartillögu sem lögð var fram af hálfu Viðreisnar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það er einlæg trú mín, og það vill svo til að þessi trú er studd gögnum, að bætt kjör kvenna í heilbrigðiskerfinu myndu hafa mikil og jákvæð áhrif á þá stöðu sem heilbrigðiskerfið er í. Ég nefni sem dæmi, af því að dóttir mín er nú nýnemi í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands þá er ég farin að lesa fréttir um þá stétt með öðrum gleraugum en ég gerði áður, að það er staðreynd að fimm árum eftir að hjúkrunarfræðingar ljúka háskólanámi, sem er í árum talið, hefur drjúgur hluti þeirra eða á milli 20 og 30% að mér skilst, snúið til annarra starfa. Við menntum fólk til þessarar greinar — afi minn var læknir og talaði um að hjúkrunarfræðingar væru æðakerfi heilbrigðiskerfisins og mér fannst það dálítið fallega sagt — við fjárfestum í þessari menntun, það er viljugt fólk sem sækir sér þetta nám en einhverra hluta vegna velur fólk sem hefur þessa ástríðu, hefur þessa menntun, að hverfa úr starfinu. Hvað skyldi valda því? Halda menn að það hafi ekkert með kjörin og starfsaðstæðurnar að gera? Ég held að enginn myndi þora að fullyrða það eða reyna að halda því fram að launaseðillinn og vinnuaðstæðurnar séu ekki lykilpunktar þar. Ég ætla að fá að koma betur að þjóðarsáttinni í seinna andsvari en ályktunin liggur fyrir og var samþykkt. Ekkert gerðist.