152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:23]
Horfa

Wilhelm Wessman (Flf):

Virðulegi forseti. Ég sé þessa umræðu hér í dag svolítið eins og þær sem ég hef svo oft tekið þátt í í mínu ævistarfi, en ég hef starfað sem hótelmaður og hótelráðgjafi út og suður um allan heim í meira en 50 ár. Ég hef þurft að glíma við ómenntað fólk í Afríku, menntað fólk á Ítalíu o.s.frv. Það sem maður byrjar á að gera áður en maður fer inn á eitthvert svæði og opnar hótel — stundum fleiri en eitt, sem ég hef gert — er að gera svokallaða „feasibility study“ og sjá hvar við stöndum. Hver er möguleikinn og hver er þörfin? Mér finnst því ekki vera svarað í þessu plaggi. Hver er þörfin fyrir þetta úrræði á viðkomandi svæði? Þá kemur náttúrlega að því að við þurfum að skilgreina hverja við ætlum að setja þarna inn. Þá er náttúrlega eitt í því. Maður sem þarf ekki að fara á svona stofnun í dag getur þurft að fara inn á slíka stofnun á morgun. Ég er nú kominn á þann aldur að frá áramótum hafa þrír vinir mínir — og þar af tveir af mínum bestu vinum — sem eru að vísu aðeins eldri en ég, svo að ég hífi mig aðeins upp, ekki getað verið heima lengur. Það bar brátt að og þessi úrræði þurfa að vera til staðar. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að við erum búin að borga til samfélagsins öll þessi ár. Ég byrjaði að vinna 16 ára gamall og borga skatta. Ég borgaði í lífeyrissjóð í 45 ár og samt er hvergi pláss fyrir mig. Hvað hefur verið gert við alla þessa peninga sem ég borgaði í skatt? Hvar eru þeir? Og hvers konar úrræði ættu þetta að vera?

Ég lít á þetta eins og það að opna eitt hótel. Þetta er ekkert voðalega flókið mál. En auðvitað eru peningar grunnurinn, að það sé fjármagn með þessu. Það þarf náttúrlega bara að byrja á því að skilgreina þetta og segja: Gott og vel. Við ætlum að hafa þetta svona. Þetta á að vera svona. Og til þess að það sé hægt þurfum við að þjálfa upp svo og svo mikið af hjúkrunarfræðingum og læknum. Við þurfum að hafa kokka, við þurfum að hafa fólk til að þrífa o.s.frv. Þegar við höfum þessa heildarmynd getum við byrjað að tala um hvað hlutirnir kosta og hverjir eigi að vinna hvað og hvað hver einstök deild eigi að vinna. En það er ekkert komið inn á það í þessu plaggi. Þetta er bara eitthvað sem er hvorki fugl né fiskur. Þetta er eins og að byrja á bók í 5. kafla. Það vantar bæði upphaf og endi. Blessunarlega erum við byrjuð að búa til anga af þessu eins og inni á Sléttuvegi, þar er kominn vísir að þessu. Landssamband eldri borgara hefur gert könnun á þessu, bæði í Noregi og í Danmörku. Þar eru þessi heimili til líka. Við þurfum bara að setjast niður og útfæra þetta og segja fyrir hve marga við þurfum að byggja. Málið er voðalega einfalt. Það vissu allir að við sem fæddumst upp úr stríðinu — að þetta yrði stór árgangur sem kæmi út. Það hefur verið vitað frá því að við fæddumst og af hverju í ósköpunum hefur eitthvað af skattpeningunum okkar ekki verið lagt til hliðar? Þeir hafa bara verið notaðir í eitthvað annað og ef svo er þarf náttúrlega að finna pening einhvers staðar annars staðar. Og ég efast ekki um að hægt sé að finna þá. Þeir eru til.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en það þarf að taka inn í þessa umræðu fólk eins og Landssamband eldri borgara sem er búið að stúdera þetta og hefur sínar skoðanir á þessu. Við þurfum að kalla að heilbrigðisstéttirnar o.s.frv.