153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

notkun rafvopna.

[15:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað hægt að orða það þannig að ráðherra hafi ákveðið þetta með einu pennastriki — þau eru reyndar nokkur pennastrikin þegar skrifað er undir reglugerðir þó það sé ekki nema nafnið manns — og gagnrýnt að þetta hafi ekki verið gert eftir að hafði átt sér stað samtal við þing eða aðra. Ég vil bara taka það fram sérstaklega, virðulegur forseti, að þessi ákvörðun var tekin eftir mjög vandaðan undirbúning, mjög langan aðdraganda þar sem það hefði í raun ekki þurft að fara fram hjá neinum að þessi ákvörðun var í burðarliðnum. Þetta hef ég ávarpað í fjölmiðlaumræðu á undanförnum mörgum mánuðum, sagst vera að undirbúa þessa reglugerð og þær reglur sem um það gilda án þess að kallað hafi verið eftir nokkurri sérstakri umræðu um það. Þessi ákvörðun er fyrst og fremst tekin á grundvelli þess að auka á öryggi lögreglumanna. Það er fullt tilefni til, virðulegur forseti. Staðan í þeirra störfum hefur orðið miklu alvarlegri á undanförnum fáum árum heldur en hún var fyrir nokkrum árum og afleiðingarnar eru augljósar. Það er mikið meira um slys á lögreglumönnum og meira um óhöpp gagnvart þeim sem þeir eru eiga við þar sem menn lenda í líkamlegum átökum.

Það er horft mikið við þessa ákvörðun til reynslu annarra þjóða. Reynsla annarra þjóða sem við berum okkur gjarnan saman við er mjög góð. Reynslan sýnir að þetta dregur svo nemur tugum prósenta úr slysum á lögreglumönnum og einnig á þeim sem þeir eru eiga við á hverjum tíma. Reynsla sýnir einnig að það þurfi sjaldnast að grípa til þessara varnarvopna heldur sé nóg að þau séu til staðar og þannig verði ekki úr þessi líkamlegu átök sem kallað er eftir. Ég get komið betur að starfsreglunum í kringum þetta en auðvitað eru mjög strangar reglur sem gilda um alla valdbeitingu lögreglu. Það á jafnt við um þetta eins og önnur varnarvopn sem lögregla hefur.