154. löggjafarþing — 53. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[18:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég mat það sem svo að ég væri ekki búinn að tala í þessu máli en ég vil bara við lokaafgreiðslu þess benda á það sem ég hef sagt hér ítrekað í umræðunni, sérstaklega við 2. umræðu, að það er ekki víst að það verði til gagns fyrir land og þjóð og samfélagið allt að reyna að troða okkur í kerfi sem er hannað utan um allt aðra hagsmuni heldur en hér eru og allt öðruvísi samfélög heldur en eru á meginlandi Evrópu. Það að við undirgöngumst kerfi þar sem eitt af meginmarkmiðunum er að troða fólki, sem vill ferðast með flugvél, í járnbrautarlest á svo augljóslega ekki við hér á Íslandi að ég held að við ættum að stíga nokkur skref til baka og reyna að nálgast þessi mál upp á nýtt þar sem við undirstrikum að við erum í raun best í heimi í þessum efnum og við eigum að byggja á þeim styrk og nálgast málin áfram til framtíðar með þeim hætti. Ég segi nei.