131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:09]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hugsanlegt að sem hv. þingmaður gekk úr ræðustól hafi hann svarað þeirri spurningu sem ég hugðist bera fram. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann með hvaða hætti ætti eftir árið 2006 að afla þessara tekna. Hv. þm. sagði að æskilegt væri að leita leiða til þess að kostnaði yrði mætt af þeim sem mest nytu þessa kerfis.

Ef ég man rétt, frú forseti, var þetta gjald sett á fyrst og fremst til að standa straum af ákveðnum stofnkostnaði. Nú hygg ég að menn séu sammála um að þeim stofnkostnaði sé að mestu fullmætt. Þá er hér verið að setja á einhvers konar annan og enn nýjan skatt sem á að standa undir einhverju öðru en stofnkostnaðinum.

Mig langaði líka til að spyrja hv. þingmann hvort hann líti ekki svo á að hér sé verið að taka upp nýjan skatt. Í öðru lagi spyr ég hverjir það séu og með hvaða hætti hann og þeir sem honum fylgja á þessu áliti telji að tekna skuli aflað eftir árið 2006.