133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sérfróður um þessi efni en vil þó segja að ég er sannfærður um, og ég talaði fyrir því í öðrum málum einnig, t.d. um Lánasjóð sveitarfélaga, að þegar starfsemi sem hefur heyrt undir almenn lög, stjórnsýslulög í þessu tilviki og almenn lög, opinber stofnun, er færð yfir í einkaréttarlegt hlutverk, einkaréttarlegan búning, færist með því nærri markaðnum þá er líklegra að lög sem eiga að gilda um markaðinn verði látin taka til hennar einnig.

Sérfræðingar í þessum efnum, bæði varðandi samkeppnisrétt íslenskan og Evrópuréttinn, vara við því að sú breyting sem gert er ráð fyrir í frumvarpi ríkisstjórnarinnar veiki varnir Ríkisútvarpsins frammi fyrir dómstólnum. Sérfræðingar vara okkur við og ég vil hlusta á þá.

Ég held að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi ekki hlustað á sérfræðingana, sérstaklega ekki vesalings Framsóknarflokkurinn sem segir í einu orðinu að hann ætli að standa (Forseti hringir.) vörð um frjálst Ríkisútvarp en er síðan tilbúinn að fella allar varnir þess niður.