133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:07]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er fróðlegt að heyra þetta og ég bið menn að muna eftir því að formaður menntamálanefndar, hv. þingmaður, sagði þetta: „Ég er alveg viss um“ og „það er enginn vafi á“. Þessi orð kann hv. þingmaður nefnilega að þurfa að éta ofan í sig hér síðar.

Einn af helstu veikleikunum við umfjöllun menntamálanefndar nú, á fyrra þingi og fyrsta þingi er að hafa ekki farið nægilega í gegnum íslenskan samkeppnisrétt og evrópskar reglur. Það má segja að við höfum í raun og veru rétt hafið það starf frá þingfrestun til þingupphafs núna að fara í gegnum þessar reglur.

Það sem í ljós kom þegar við fengum Ólaf E. Friðriksson og lásum, eins og allir hafa auðvitað gert, ritgerð hans um stöðu Ríkisútvarpsins í Evrópurétti var auðvitað það að einmitt leikur vafi á þessu. Þessi þrjú atriði sem ég taldi upp og raunar hið fjórða sem nefnt er í framhaldsnefndaráliti okkar sem er aðeins lengra en framhaldsnefndarálit meiri hlutans segja nákvæmlega þetta, (Forseti hringir.) hvernig þetta muni verða gert fyrir Evrópudómstóli.

Þá skal Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) endurtaka þá ræðu sem hann flutti hér áðan.