133. löggjafarþing — 53. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[01:28]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Herra forseti. Ég þakka forsetum fyrir síðbúnar undirtektir við óskum mínum um að fundi yrði frestað og menn ræddu aðeins framhaldið. Ég veit að það hefur verið gert og að rætt hefur verið um óskir mínar um að formaður Framsóknarflokksins komi til umræðunnar. Mér er tjáð og ég þykist vita að tilraunir til að ná honum til verks í kvöld eða nótt öllu heldur hafi reynst algerlega árangurslausar. Hins vegar standi fullur vilji til þess að tryggja að formaður Framsóknarflokksins verði við umræðuna þegar henni vindur fram á morgun. Ég met það mikils og treysti því að forsetar standi þétt að baki mér í því (Gripið fram í.) að virða rétt minn í þessum efnum og tryggja framgang og framvindu hans. Ég met stöðuna þannig að það verði ekki lengra komist að þessu sinni á þessari stundu í málinu þó að auðvitað væri freistandi að halda áfram enn um sinn umræðum um ýmsa (Gripið fram í.) mikilvægi þætti málsins.

(Forseti (JónK): Ræðumaður hefur orðið.)

Já, það er viss ókyrrð í salnum, en það verður að hafa það. Ég get við þessar aðstæður fallist á að ljúka máli mínu nú án mikilla lenginga úr þessu en ég tek það mjög skýrt fram að ég á margt ósagt í málinu og er að stytta mjög ákveðna kafla í ræðu minni sem ég hafði hugsað mér að fara í. Ég á t.d. alveg óræddan þann þátt sem snýr sérstaklega að sögu Ríkisútvarpsins og framlagi einstakra starfsmanna þar sumar hverja sem ég var svo gæfusamur að þekkja og er full ástæða til að halda nafni þeirra og hlut á lofti þegar við ræðum málin á örlagatímum í sögu Ríkisútvarpsins. En ég geng út frá því að verði það í mannlegu valdi muni formaður Framsóknarflokksins koma til umræðunnar á síðari stigum. Þar sem ég á seinni ræðu mína eftir, (Gripið fram í.) við getum víst ekki farið út fyrir þau mörk (Gripið fram í.) get ég fallist á og mun nú gera hlé á og ljúka fyrri ræðu minni.

Ég veit að sönnu að staða Framsóknarflokksins er ekki auðveld þar sem t.d. er ekki heiglum hent að kalla til sögunnar varaformann Framsóknarflokksins sem rær nú lífróður mjög á hinu flata Suðurlandi. Sömuleiðis á formaður þingflokksins ekki vel heimangengt því hann hefur í mörgu að mæðast um þessar stundir. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á að fá formann Framsóknarflokksins og treysti því að það muni hafast og læt því máli mínu lokið að sinni.