139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[01:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, ég kem aðeins til að lýsa því sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna að við fögnum þeirri breytingartillögu sem fram er komin. Við teljum hana þó ganga of skammt miðað við það sem við sögðum hér í upphafi og hefðum helst viljað að frumvarpið yrði dregið til baka og gildandi lög látin standa en þetta var niðurstaðan, eins og hv. framsögumaður fór yfir í ræðu sinni, úr vinnu nefndarinnar. Því vil ég taka undir hvatningu hv. þm. Þuríðar Backman um að tíminn sem líður til þarnæstu áramóta, 1. janúar 2012, verði nýttur vel í ráðuneytinu og ábendingar mínar til þeirra sem fara í þá vinnu eru þær að nýta tímann vel til að uppfylla þau gildandi lög sem við höfum. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna að þau séu góð og það sé mjög brýnt að koma þeim í framkvæmd. Það er í samræmi við þær fjölmörgu umsagnir sem bárust og má segja að það hafi verið nær einróma skoðun þeirra umsagnaraðila sem tjáðu sig um málið.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, við fögnum þessari breytingartillögu.