140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, sem einnig var lagt fram á 139. þingi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót framkvæmdastofnun undir heitinu Vegagerðin sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Myndun stofnunarinnar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan og hins vegar Vegagerðin. Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnunar, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðar. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Farsýsluna. Myndun stofnananna tveggja er samþætt verkefni og því eru almennar athugasemdir við þetta frumvarp að miklu leyti samhljóða almennum athugasemdum við frumvarp um Farsýsluna.

Þetta mál á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá því í júní 2008, Samgönguframkvæmdir – Stjórnsýsluúttekt, voru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála þar sem lagt var til að settar yrðu á fót tvær stofnanir, þ.e. stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun, ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar- og viðhalds.

Í janúar 2009 var skipuð nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Nefndin skilaði skýrslu sinni Framtíðarskipan stofnana samgöngumála — Greining og valkostir í lok júní 2009. Þar voru kynntir fimm valkostir um stofnanaskipan, auk tillagna og ábendinga um meiri samhæfingu í samgöngumálum, t.d. um að bæta verklag við undirbúning samgönguáætlunar og að efla stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins. Að vel athuguðu máli og með hliðsjón af tillögum Ríkisendurskoðunar var ákveðið að hefja undirbúning að myndun tveggja stofnana í samræmi við einn valkosta nefndarinnar:

1. Stjórnsýslustofnun með sameiningu Umferðarstofu, Flugmálastjórnar og stjórnsýsluverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar.

2. Framkvæmda- og rekstrarstofnun með sameiningu framkvæmda- og rekstrarverkefna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.

Skipaður var stýrihópur til að vinna nákvæma greiningu á kostum endurskipulagningarinnar og leggja fram tillögur um breytta stofnanaskipan samgöngumála. Í starfi stýrihópsins var lögð áhersla á samstarf og samráð við stofnanir og að halda vel á starfsmannaþætti breytinga. Settur var upp innri vefur þar sem upplýsingar um verkefnið voru aðgengilegar öllum starfsmönnum.

Á vegum stýrihópsins störfuðu sjö vinnuhópar skipaðir starfsmönnum stofnananna og ráðuneytisins sem unnu að greiningu og útfærslu einstakra þátta. Stýrihópurinn mun áfram undirbúa sameininguna. Við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, er áætlunin að fyrir liggi endanleg samrunaáætlun sem taki meðal annars til starfsmannamála, fjármála og húsnæðismála. Stefnt er að því að sameina sem fyrst höfuðstöðvar hvorrar stofnunar fyrir sig í húsnæði, enda er slíkt forsenda þess að áform um hagræðingu nái fram að ganga.

Við myndun Vegagerðarinnar eru sameinaðir hlutar úr tveimur stofnunum. Stærðarmunur núverandi Vegagerðar og væntanlegrar Vegagerðar er hlutfallslega lítill eða um 6%. Tilkoma nýrrar Vegagerðar felur í sér óverulega stækkun og hagræðingu í stoðþjónustu og yfirstjórn. Möguleikar á faglegri samlegð eru hins vegar fyrir hendi sem kemur meðal annars fram í því að nær engir verkferlar eru fyrir fram taldir ósamþættanlegir. Stór stofnun sem hefur trausta innviði og markvissa stjórnun getur oft bætt við sig verkefnum án þess að kostnaður aukist að ráði. Í þessu felst að jaðarkostnaður vegna viðbótarverkefna er takmarkaður. Auk þess felur sameining í sér tækifæri til að endurmeta og bæta starfsemina. Þegar horft er til þessara atriða má ætla að myndun Vegagerðarinnar feli í sér hagræðingarmöguleika sem geta numið að minnsta kosti 10% af rekstrargjöldum.

Hæstv. forseti. Ég mun nú stuttlega gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins:

Í fyrsta lagi eru í 3. gr. felld niður ákvæði gildandi laga um hafnaráð, siglingaráð og flugráð. Í stað hinna lögbundnu ráða er lagt til að ráðherra skipi fagráð eins og þörf krefur hverju sinni auk hins almenna samráðs stofnunarinnar við aðrar stofnanir, hagsmunaaðila og almenning um þau verkefni sem stofnuninni eru falin. Ég legg áherslu á, eins og ég gerði hér við umræðu um fyrra mál að ekki er verið að draga úr tengslum við almenning úti í samfélaginu, þvert á móti er ætlunin að hafa þessi tengsl þannig að við svörum kalli og þörfum sem best á hverjum tíma.

Í öðru lagi er í 5. og 6. gr. verkefnum stofnunarinnar skipt upp í framkvæmd og viðhald samgöngumannvirkja annars vegar og eignarhald og rekstur þeirra hins vegar. Um þessi verkefni er nánar fjallað í einstökum sérlögum sem stofnunin starfar eftir. Má þar nefna vegalög og hafnalög.

Í þriðja lagi er í 7. gr. fjallað um rekstrarverkefni á sviði almenningssamgangna og eðlilegt að slík framkvæmdaverkefni séu á könnu Vegagerðarinnar. Lúta verkefnin bæði að uppbyggingu almenningssamgangna sem og umsjón þar að lútandi.

Í fjórða lagi er í 8. gr. ákvæði sem miðar að því að auka öryggi í samgöngum og þannig draga úr slysum og tjóni af þeirra völdum. Í því skyni eru stofnuninni falin verkefni sem lúta að öryggisstjórnun samgangna og ráðgjöf þar að lútandi.

Í fimmta lagi er í 10. gr. kveðið á um það mikilvæga hlutverk Vegagerðarinnar að sinna rannsóknum, greiningu og þróun á starfssviði sínu. Falla þar undir bæði einstök verkefni sem stofnunin sinnir sjálf sem og þátttaka í verkefnum með öðrum aðilum sem stunda rannsóknir, greiningu og þróun á sama sviði.

Í sjötta lagi er að finna í 11. gr. framsalsheimild fyrir stofnunina vegna einstakra verkefna eða verkþátta ef hagkvæmnisrök hníga til þess. Vil ég í því sambandi sérstaklega vekja athygli á þeim möguleika að flytja verkefni sem tengjast framkvæmdum og eftirliti á hafi og strönd til Landhelgisgæslu Íslands og legg áherslu á það með hliðsjón af umræðu hér fyrr.

Við undirbúning á endurframlagningu frumvarpsins í ráðuneyti mínu var sérstaklega skoðaður sá möguleiki að flytja hluta þeirra verkefna til Landhelgisgæslu Íslands sem ætlunin var í því frumvarpi sem ekki fékkst afgreitt á 139. löggjafarþingi að flytjast frá Siglingastofnun Íslands til Vegagerðarinnar. Var haft samráð við forstöðumenn þessara stofnana um málið en vegna andstöðu sem þar kom fram var fallið frá þeirri tilhögun enda mikilvægt að slík yfirfærsla sé unnin í góðu samráði. Ég vek athygli á því í ljósi þess að spurt var hvort við hefðum gengið til viðræðna um það. Eftir stendur því óbreytt mikilvæg heimild 11. gr. frumvarpsins sem gefur svigrúm til flutnings slíkra verkefna enda hníga hagkvæmnisrök til þess eins og áður sagði.

Í sjöunda lagi er í 12. og 13. gr. fjallað um fjármögnun stofnunarinnar.

Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins. Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.