140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

346. mál
[18:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005.

Í frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist ákvæði um að innanríkisráðherra verði heimilað að gefa út safn íslenskra laga. Er með þessum breytingum brugðist við áliti umboðsmanns Alþingis sem mæltist til þess að útgáfu lagasafns yrði búin skýrari og samræmdari grunnur.

Jafnframt er lagt til að lög nr. 48/1929, um laganefnd, verði felld úr gildi.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að skipa ritstjórn lagasafns sem beri ábyrgð á og hafi umsjón með útgáfu lagasafns, hvort heldur í prentuðu formi eða á rafrænu formi. Í gildi er samningur um útgáfu lagasafns í rafrænu formi frá 28. júní 1996 þar sem þáverandi dómsmálaráðherra fól skrifstofu Alþingis að taka að sér uppfærslu rafræns lagasafns. Er ekki gert ráð fyrir að því fyrirkomulagi verði breytt, en ráðherra þó veitt heimild til að semja við aðra aðila sem kynnu að vilja gefa út og selja aðgang að rafrænu formi lagasafns, svo sem tíðkast hefur annars staðar á Norðurlöndum. Áfram verði almenningi gefinn kostur á að nálgast þau lög sem í gildi eru á opinberu vefsvæði án kostnaðar, en til greina kæmi að selja aðgang að ítarlegri samantekt birtra laga og dóma.

Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er brugðist við athugasemdum umboðsmanns Alþingis um útgáfu prentaðs lagasafns eins og áður hefur komið fram. Er lagt til að ráðherra ákveði hvort gefið verði út lagasafn í prentuðu formi að fenginni tillögu ritstjórnar lagasafns sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Er jafnframt gert ráð fyrir að kostnaður af útgáfu prentaðs lagasafns greiðist úr ríkissjóði, en að tekjur af sölu þess renni að sama skapi til þess að greiða allan kostnað sem samfara er útgáfu hins prentaða lagasafns.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.