141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[20:11]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, á þskj. 644, mál nr. 502.

Í 8. gr. núgildandi laga er kveðið á um að ívilnanir geti verið í formi beins opinbers fjárstuðnings vegna nýfjárfestingaverkefnis, þ.e. til slíks er heimild í gildandi lögum, en með frumvarpi þessu er lagt til að sá fjárstuðningur eða heimild til slíks beins fjárstuðnings verði felld úr gildi. Er þetta gert vegna þess að ekki hefur reynt á þetta ákvæði, það hefur ekki komið til tals að veita slíkan beinan fjárstuðning meðal annars í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Augljóslega er þörf fyrir áframhaldandi aðhald í rekstri og ekki heppilegt að hafa slíkt ákvæði í lögum ef ekki er líklegt að til þess komi að því verði beitt.

Hins vegar og samhliða brottfalli þessa ákvæðis eða þessarar heimild til beins fjárstuðnings er lagt til að ívilnanir í formi byggðaaðstoðar, sem tengist þá sköttum og opinberum gjöldum, verði auknar frá því sem nú er kveðið á um í 9. gr. laganna. Hér er um að ræða breytingar sem geta skipt fjárfesta miklu máli, einkum við upphaf fjárfestingar. Með því er reynt að stuðla að bættri samkeppnisstöðu fyrir Ísland þegar kemur að slíkum ívilnunum vegna nýfjárfestinga á Íslandi og rétt að taka fram að það gildir jafnt fyrir innlenda sem erlenda aðila sem geta nýtt sér ákvæðin í þessari rammalöggjöf. En reynsla okkar undanfarin ár af samskiptum við áhugasama erlenda fjárfesta er auðvitað sú að þeir eru mjög vel vakandi fyrir því hvaða ívilnandi kjör bjóðast hér á landi í samanburði við önnur lönd. Þetta er því liður í að reyna að bæta samkeppnisstöðu Íslands að þessu leyti.

Þær breytingar sem frumvarpið felur einkum í sér eru eftirtaldar:

1. Að félögum verði veitt 18% tekjuskattshlutfall eða þak við nýfjárfestingar á viðeigandi tíma í stað 20% eins og nú er, samanber þá almennu tekjuskattsprósentu sem er við lýði í lögum.

2. Að slíkt félag sem ræðst í nýfjárfestingu sé undanþegið stimpilgjöldum í stað þess að stimpilgjaldið sé 0,15%.

3. Að afsláttur af fasteignaskatti geti numið allt að 50% í stað 30% nú.

4. Að afsláttur af almennu tryggingagjaldi geti numið allt að 50% í stað 20% nú.

Frumvarpið hefur eðli málsins samkvæmt ekki bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu geta þó vissulega haft í för með sér að ríkissjóður verði af nokkrum skatttekjum sem og sveitarfélög yfir það tímabil sem ívilnunarsamningurinn gildir. Á móti vegur að fjárfestingarverkefni skapa fjölda starfa og skila þjóðarbúinu auknum verðmætum í framtíðinni þannig að ávinningur er af því að ná slíkum verkefnum af stað og ríkið verður að sjálfsögðu ekki af skatttekjum ef ekki verður af slíkum fjárfestingum án nægjanlegrar hvatningar. Í mörgum tilvikum getur það einmitt verið tilfellið að óvissa er um hvort af viðkomandi nýfjárfestingum yrði ef ekki kæmu til þær ívilnanir eða hliðstæðar ívilnanir því sem lagðar eru til í frumvarpinu og þar með yrðu menn af tekjum og störfum sem ella vonandi skapast.

Nái frumvarpið fram að ganga mun það þegar taka gildi en breytingarnar koma ekki til framkvæmda fyrr en samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, liggur fyrir, en tilkynning um þessar fyrirhuguðu breytingar hefur þegar verið send stofnuninni. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á að lög nr. 99/2010 falla að óbreyttu úr gildi 31. desember 2013, það er á sama tíma og samþykkt byggðakorts, sem er í gildi fyrir Ísland nú fyrir árin 2008 til og með 2013, fellur úr gildi. Þar af leiðandi er næsta víst að lögin komi til endurskoðunar á næsta ári og til framlengingar þá að loknu árinu 2013 og þá með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem mun þá vonandi liggja þá fyrir varðandi byggðakortið íslenska. Það skiptir að sjálfsögðu máli hér hvernig byggðarlögin eru flokkuð með tilliti til heimilda stjórnvalda til þess að veita ívilnanir og stuðning á byggðaþróunarsvæðum.

Hæstv. forseti. Þetta eru meginefni þessa frumvarps sem í sjálfu sér felur í sér tiltölulega einfaldar og skýrar efnisbreytingar á gildandi ívilnunarlöggjöf þannig að um það þarf ekki að fjölyrða. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.