143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í morgun var greint frá því í fréttum að nokkrar fjölskyldur búi nú í hesthúsum í Almannadal. Er þar um að ræða ný hesthús og hverfið er staðsett fyrir ofan Reykjavík. Í fréttinni kemur einnig fram að Félag hesthúsaeigenda í Almannadal hafi sótt um það hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík að einstaklingar fái að skrá lögheimili á efri hæðum hesthúsanna.

Ég held að þetta dæmi sem fjallað var um í fréttum í morgun sé eitt dæmi um það alvarlega ástand sem blasir við á húsnæðismarkaði. Mikil vöntun er á leiguhúsnæði og margir hafa misst húsnæði í kjölfar efnahagshrunsins sem varð haustið 2008 og geta því ekki eignast þak yfir höfuðið og allra síst keypt sér húseign.

Þess vegna er ánægjulegt að líta til þess að mikil vinna fer nú fram í ráðuneyti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur um framtíðarskipan húsnæðismála. Við verkefnavinnuna er horft til þess að allir verða að eiga raunhæft val um leigu eða kaup á húsnæði og að um örugga leigu sé að ræða. Það er sérstaklega mikilvægt vegna þess að 1. nóvember síðastliðinn tóku við ný neytendalög sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili en talið er að eftir að þau tóku gildi komist jafnvel 20% þeirra sem fara í greiðslumat ekki í gegn.

Í verkefnavinnu um framtíðarskipan húsnæðismála voru teymi þar sem hvert og eitt vann með ákveðna þætti. Nú þegar hafa teymin sem tóku fyrir uppbyggingu á almennum leigumarkaði og unnu með skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum skilað af sér tillögum. Þær má finna á vef ráðuneytisins. Ég hvet alla til að fara inn á vef ráðuneytisins og kynna sér þessar tillögur. Um er að ræða tillögur til skemmri og lengri tíma, en hér á landi er bráðavandi á húsnæðismarkaði en jafnframt þarf að horfa til framtíðar. (Forseti hringir.) Því er nauðsynlegt að tryggja raunhæft val á húsnæðismarkaði því að allir verða að hafa þak yfir höfuðið.