145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir skoðun hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og ítreka það sem ég sagði áðan um lagafrumvarpið sem var lagt fram á þingi í gær um stofnun félags til að ráðstafa og fara með eignir vegna stöðugleikaframlagsins sem þrotabúin eiga að leggja inn. Þau eru einn hluti af því sem gjörbreytir fjárlögum næsta árs. Þetta er risamál, stærsta mál sem íslensk stjórnmál eiga að vera að fást við. Það er reyndar búið að halda þeim utan við þetta að mestu leyti, þetta hefur að stærstum hluta verið afgreitt uppi í forsætisráðuneyti á einhverjum lokuðum sellufundum þar. Þetta þarf að koma hérna inn. Þetta verðum við að fá að ræða áður en fjárlög eru ákveðin, enda er nánast kveðið á um það í frumvarpinu að þetta þurfi að vera í fjárlögum.

Það þarf ekki merkilega stærðfræðikunnáttu til að sjá varðandi hallareksturinn, það er algjörlega augljóst, að sá afgangur sem átti að vera á fjárlögum miðað við fjárlagafrumvarpið, miðað við tillögu meiri hlutans til viðbótar sem dró úr afgangnum, er farinn. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eins og það lítur út núna með breytingartillögum meiri hlutans verður ríkið ekki rekið réttum megin við núllið á næsta ári. Það er að hefja skuldasöfnun. Til að ná því markmiði að vera á núllinu eða réttum megin við að þarf stjórnarmeirihlutinn að fara út í Landsbanka og ná í aukinn arð, óreglulegar tekjur, vegna þess að hann fær ekki afgang úr reglulegum rekstri. Þess vegna er að hefjast hallarekstur að nýju á ríkinu.

Það er fullt af köflum í þessu nefndaráliti sem ég skil ekki af hverju eru í því. Það er fjallað um Íbúðalánasjóð en það eru engar tillögur, þetta er bara einhver pirringur úr Sjálfstæðisflokknum. Það er fjallað hérna um lífeyrisskuldbindingar en engar tillögur um (Forseti hringir.) hvernig á að leysa málin. Það er einhver pirringur meira og minna úr Sjálfstæðisflokknum. Það er hið sama og með eftirlitshlutverkið. Við vitum nákvæmlega hvaðan það kemur og við vitum nákvæmlega hvaða augum það fólk lítur á eftirlitshlutverk opinberra stofnana. Það er ekki fyrir ríkið, það er ekki fyrir almenning, það er fyrir þá sem kosta það hingað á þing.