145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég verð að segja að ég er svolítið hissa á að menn skuli ekki horfast í augu við stöðuna að því er varðar þessa 2. umr. fjárlaga. Við erum að tala um að fram hafi komið að það eru beinlínis ósannindi í nefndaráliti. Nú stendur til að prenta það upp, leiðrétta og draga ósannindin til baka, lygar sem þar eru settar fram. Villur hafa komið fram. Við erum að ræða nýjar upplýsingar sem varða hundruð milljóna. Það er verið að taka nýjar ákvarðanir. Er eitthvað óljóst við það, forseti, að það er fullkomlega málefnalegt að ætlast til þess að við gerum hlé á umræðunni þar til allar fullnægjandi forsendur liggja fyrir til að umræðunni geti undið fram? Er eitthvað óljóst við að þetta er algjörlega óboðlegt? Við erum komin út úr starfsáætlun og (Forseti hringir.) verkstjórnin hér er fyrir neðan allar hellur. Stjórnarmeirihlutinn og forusta þingsins veldur bara ekki verkefnum sínum.