145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst það svolítið skemmtileg tenging hjá hv. þingmanni að fjalla um breytingartillögur meiri hluta hv. fjárlaganefndar og tengja við hugmyndir um rómantíska þjóðernishyggju og jafnvel rómantíska fornaldarþrá. Eins og ég hef áður sagt við þessa umræðu er umræða um fjárlög í mínum huga ekkert annað en umræða um samfélagsmál þar sem fjárlögin eru auðvitað bara útgjaldahliðin á því hvernig við ætlum að reka samfélag okkar. Þess vegna finnst mér góðra gjalda vert að spegla það í alls konar hugmyndafræðilegu ljósi því að það segir okkur helling um það sem verið er að gera með fjárlögunum. Framkvæmdir á Alþingisreitnum eru bara einn lítill angi inn í þá umræðu en samt vinkill sem er vel þess virði að tala um.

Ég staldraði við það sem hv. þingmaður sagði um að deilt væri um það hversu falleg teikningin af byggingunni væri. Mér finnst það alveg atriði út af fyrir sig en það sem mér finnst kannski nærtækara að spyrja um er hversu praktísk bygging verði sem teiknuð var 1918. Það tengist einmitt umræðu hv. þingmanns um höfundarheiðurinn. Er líklegt að bygging sem byggir á 100 ára gamalli teikningu þjóni þeim tilgangi sem þarf í nútímasamfélagi með öllum þeim tæknibreytingum sem orðið hafa á síðustu 100 árum?