145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningar hv. þingmanns þykja mér mjög góðar og alveg þess verðar að velta fyrir sér. Þær eru mjög gott innlegg í það að fjárlögin endurspegla hvernig þjóðfélag við viljum. Þessi fornaldarþrá er ekki það þjóðfélag sem ég vil. Eins og ég sé þetta fyrir mér varðandi teikningu Guðjóns Samúelssonar eru þetta fyrst og fremst kröfur um einhverja útlitsstaðla, um útlitið. Þó að hv. Guðjón Samúelsson, ef ég má segja svo, herra forseti, hafi teiknað hús fyrir 100 árum þarf ytra byrðið ekkert endilega að endurspegla innra byrðið. Það er það sem þarf að huga að. Það er ekki þannig að við byggjum byggingar með svo háum gluggum eins og er til dæmis sett þarna fram. Þó að allt sé byggt með gluggum nú til dags er það aðeins öðruvísi.

Hins vegar er líka vafasamt að nota 100 ára gamlar teikningar. Hver er höfundurinn þegar upp er staðið? Þarna munu einhverjir arkitektar koma að innanhússhönnun og fleiru. Er þetta þá enn bygging eða teikning eftir Guðjón Samúelsson? Er þetta ekki þá bara teikning eða bygging sem Guðjón Samúelsson og teikning hans veitti innblástur að? Mér finnst þetta fyrst og fremst endurspegla einhverja þjóðernisþörf og fortíðarþrá og kannski ákveðna gullöld Framsóknarflokksins.