150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

styrkir til nýsköpunar.

[14:06]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra skautaði fram hjá spurningunni að mestu leyti og talaði um að þegar fleiri sækja um í Tækniþróunarsjóð komist færri að. Við erum hins vegar ekki að tala um að lægra hlutfall komist að heldur að færri aðilar hljóti styrki. Það er vandamál. Þetta er farið úr 40% í 10%, ekki bara vegna aukningar á umsóknum heldur eru hreinlega færri styrkir veittir.

Þá fer ráðherra að tala um allt aðra hluti, hluti sem eru vissulega ágætir en ég á að vísu eftir að sjá hvaða reglur munu gilda um Kríu. Á undanförnum árum hefur hver skýrslan á fætur annarri verið unnin um nýsköpun og sprotafyrirtæki, t.d. góð skýrsla um skapandi greinar frá 2012 þar sem er fullt af góðum tillögum sem hefur nánast ekkert verið unnið eftir. Ég verð að spyrja: Hver er tilgangurinn með fjöldaframleiðslu á öllum þessum skýrslum ef ekki er markmið, vilji eða geta hjá ríkisstjórninni til að fara eftir þeim tillögum og koma þeim í framkvæmd? Endurgreiðsluþakið hentar nánast eingöngu stórum fyrirtækjum. Hversu lengi ætlum við að lifa á fornri frægð í staðinn fyrir að undirbúa framtíðina?