150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í þessu sama minnisblaði sem ég vitnaði hér í, samantekt frá fræðimönnum, þá segir um ákvæðið í stjórnarskrá:

„Ef ákvæðið er skýrt samkvæmt orðanna hljóðan, er efnislegt inntak ákvæðisins fyrst og fremst eftirfarandi:

1. Ákvæðið tryggir tilvist sveitarfélaga og að þau skulu vera þáttur í stjórnkerfi ríkisins. Að óbreyttri stjórnarskrá mætti ekki leggja niður sveitarfélagastigið.“ — Sveitarstjórnarstigið í heild sinni.

„2. Sveitarfélög þurfa að vera a.m.k. fleiri en eitt.

3. Sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf, en það ræðst af gildandi lagareglum löggjafarvaldsins hvers tíma hvaða málefni það eru.“ — Hvort það er skipulagsvaldið eða grunnskólarnir eða eitthvað annað eins og ég skil það.

„4. Sveitarfélög eru bundin af lögum Alþingis.“

Eins og ég túlka þetta sé ég ekki annað en að í rauninni gæti Alþingi teiknað á blað hvernig sveitarfélögin í landinu ættu að líta út og ákveðið það. En það er þó engan veginn það sem ég myndi nokkurn tímann leggja til eða hafa áhuga á að við færum í hér. En ég tel að Alþingi hafi býsna mikið vald til þess að ákvarða skipan sveitarfélaganna samt sem áður. Svo er annað mál hvernig samvinnan tekst. Það sem er lagt upp með í þessari tillögu er að stefnt verði að ákveðnu markmiði og farið í samvinnu sveitarfélags og ríkis um að ná því.