151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

greining leghálssýna.

[13:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni til upprifjunar er búið að taka ákvörðun um að byggja aðra heilsugæslustöð á Suðurnesjum einmitt til að koma til móts við þá stöðu sem hér hefur verið nefnd. Ég hef lagt afar mikla áherslu á að bæta heilsugæsluna á mínum tíma og vænti þess að við öll sem stöndum með opinberri og opinni heilbrigðisþjónustu fögnum því að fjármagn til heilsugæslunnar á núvirði hefur aukist um 25% á mínum tíma sem heilbrigðisráðherra. Það er mikilvægt.

Ég vil líka segja það að þegar sú ákvörðun er tekin af heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu að semja við þessa rannsóknastofu í Danmörku þá snýst það um öryggi. Það snýst fyrst og fremst um öryggi. Ég hef lagt á það áherslu að standa með faglegu mati míns fólks á því hvernig öryggi er best tryggt og upplýsingar verði öruggar á milli rannsóknastofunnar og þeirra kvenna sem fara í skimun. (Forseti hringir.) Þær niðurstöður munu berast hratt og örugglega þegar þetta verður komið í það horf sem er og verður til framtíðar og mun liggja fyrir á allra næstu dögum.