151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

rannsókn á meðferðarheimili.

[13:22]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Í síðasta tölublaði Stundarinnar stigu fram sex konur sem vistaðar höfðu verið á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði og lýstu því hvernig forstöðumaður heimilisins hefði beitt þær bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Í sláandi frásögnum lýsa þær skelfilegu harðræði og greina frá því að þrúgandi óttastjórnun hafi ríkt á heimilinu. Átakanlegar eru lýsingarnar á barsmíðum sem börnin urðu fyrir á þessari stofnun, sem yfirvöld áttu að hafa eftirlit með.

Í umfjölluninni kemur einnig fram að ofbeldið sem um ræðir virðist hafa verið á margra vitorði og að tilkynningar um harðræði og ofbeldi af hálfu forstöðumannsins hafi borist Barnaverndarstofu þegar árið 2000. Árið 2001 upplýsti svo umboðsmaður barna Barnaverndarstofu um fjölda ábendinga frá þáverandi skjólstæðingum og frá foreldrum. Í kjölfarið boðaði hún til sín þrjá fyrrverandi skjólstæðinga á fund sem allar höfðu orðið fyrir ofbeldi á meðan á dvöl þeirra stóð. Umboðsmaður fór fram á það við Barnaverndarstofu árið 2002 að rannsókn yrði gerð á ásökununum, en gögnin benda til þess að það hafi ekki verið gert.

Í opnu bréfi kvennanna til félagsmálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Við upplifum að á okkur hafi ekki verið hlustað og stígum því fram í dag í þeirri von að nú verði starfsemin rannsökuð, mistök verði viðurkennd og við beðnar afsökunar.“

Konurnar krefjast þess að nú verði skipuð rannsóknarnefnd til að fara í saumana á rekstri heimilisins með hliðsjón af vitnisburðum þeirra um ofbeldi forstöðumannsins sem rak heimilið á árunum 1997–2007.

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé búin að kynna sér málið sem um ræðir. Ætlar hún að beita sér fyrir því að ráðuneyti hennar rannsaki málið, eins og konurnar fara fram á? Telur ráðherra ekki eðlilegt að þolendur í þessu máli fái greiddar bætur vegna þess miska sem þær urðu fyrir?