151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

rannsókn á meðferðarheimili.

[13:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Því er fyrst til að svara, af því að hv. þingmaður spyr hvort ég hafi kynnt mér málið, að hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur upplýst ríkisstjórnina um að hann sé með þessi mál til skoðunar og muni í kjölfarið fara yfir þau á vettvangi ríkisstjórnar. Þannig að það liggur fyrir.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort rétt sé að efna til rannsóknar. Það mun að sjálfsögðu ráðast af því hvaða mat hæstv. félags- og barnamálaráðherra leggur á málið. Sökum annarra mála sem komið hafa upp í fréttum að undanförnu og varða sérstaklega málefni Arnarholts hefur forsætisráðuneytið verið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og sendi velferðarnefnd minnisblað um það, sem ég vona að hafi borist nefndinni núna í dag, þar sem einmitt er farið yfir hvernig slíkum rannsóknum hefur verið háttað og hvernig væri hægt að hátta þeim. Það er auðvitað í stöðunni að nýta þær heimildir sem til staðar eru í lögum hvað varðar rannsóknarnefndir Alþingis. Það er líka hægt að setja á laggirnar sérstakar stjórnsýslunefndir en undir slíkar rannsóknarnefndar þarf sérstaka lagastoð. Það hefur vakið með mér vangaveltur um hvort eðlilegra væri að við værum með sérstaka umfjöllun um opinberar rannsóknarnefndir en ekki eingöngu rannsóknarnefndir á vegum Alþingis. Vissulega er það svo að við sjáum ýmis mál koma upp þar sem kallað er eftir rannsóknum og sumt á kannski heima framkvæmdarvalds megin og annað Alþingis megin. Hvað þetta tiltekna mál varðar sem hv. þingmaður nefnir tel ég rétt að bíða eftir því að hæstv. félags- og barnamálaráðherra fari yfir það á vettvangi ríkisstjórnarinnar áður en ég get sagt til um hver endanleg niðurstaða verður um frekari málsmeðferð.