151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

rannsókn á meðferðarheimili.

[13:27]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra greinargóð og ítarleg svör og greinilega samhygð sem hún sýnir málinu. Við eigum því miður langa sögu hér á landi af ofbeldi og mismunun gagnvart fötluðum börnum á stofnunum og þessar uppljóstranir koma því miður ekki á óvart þótt sláandi og sorglegar séu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða skref hún og ráðuneyti hennar hafi tekið og muni taka til að koma í veg fyrir mál af þessu tagi, koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur. Er ráðherra sammála því að setja þurfi á fót óháð ytra eftirlitskerfi með slíkum meðferðarheimilum þar sem frumkvæðisathuganir geti verið upp teknar?