151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

rannsókn á meðferðarheimili.

[13:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í fyrsta lagi held ég að það sé mikilvægt í þessu samhengi að minna á þau lagafrumvörp um málefni barna sem eru hér til meðferðar í þinginu á vegum hæstv. félags- og barnamálaráðherra þar sem í raun er verið að leggja til að gera breytingu á því stofnanaumhverfi, getum við sagt, sem lýtur að málefnum barna og barnaverndar. Ég hef þá trú að þessi mál verði mikið framfaraskref þegar kemur að málefnum barna í samtímanum. Það er eitt verkefni. Ég held að við séum að gera rétta hluti og ég vona svo sannarlega að þingið muni ljúka afgreiðslu þessara mála.

Síðan er það spurning um fortíðina sem verður kveikjan að máli hv. þingmanns. Það er ljóst að þótt við höfum unnið töluvert verk í því, nú síðast fyrir jól með því að ljúka frumvarpi um sanngirnisbætur til þeirra fötluðu barna sem dvöldu á einhvers konar stofnunum eða heimilum á vegum hins opinbera, þá eru fleiri verkefni sem þarf að taka á. Í því samhengi þarf að skoða þennan lagaramma og rannsóknarheimildir stjórnsýslunefnda. (Forseti hringir.) Ég vonast til að eiga gott samtal við velferðarnefnd Alþingis um þau mál, ekki bara hvað varðar málefni fatlaðra, sem var kveikjan að fyrirspurn þeirra, heldur einmitt þessi mál í heild sinni.