151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um utanríkisviðskipti og þessa nýju skýrslu. Ekki þarf að tíunda það hversu mikilvæg líflína viðskipti af þessu tagi eru fyrir hverja þjóð. Ég ætla að eyða tíma mínum í að fara aðeins yfir fáein atriði sem mér þykir rétt að víkja að til umhugsunar við áframhaldandi mótun utanríkisviðskipta. Þetta eru atriði sem stjórnvöld geta annaðhvort sett fram sem skilyrði eða tengt skilyrðum eða hvatningu til fyrirtækja, hvort sem er erlendra eða innlendra.

Hvaða grunnstoðir sjáum við þegar við erum að ræða utanríkisviðskipti? Ég hef punktað hjá mér sex atriði og ætla aðeins að fjalla um þau og byrja á jafnvægi milli inn- og útflutnings hvers lands. Bæði er mjög mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfu og hafa þetta fjölbreytt á báða bóga og eins, þegar kemur að hverju landi fyrir sig, að reyna að ná jafnvægi þar líka. Staða okkar í heiminum er slík að það vill oft verða þannig að við flytjum minna út til mjög margra landa en við flytjum inn frá þeim. Það liggur kannski í hlutarins eðli en samt sem áður er unnt að leita þessa jafnvægis eins og hægt er.

Það þarf að gæta að vistspori inn- og útflutnings. Við erum sífellt að tala um loftslagsáhrifin og sem grænasta viðskiptastefnu. Það er eitthvað sem við hefðum ekki heyrt fyrir 20 árum, eða lítið alla vega. Þar snýst þetta um flutningsmátann. Þetta snýst um fjarlægðir. Er það alveg gefið að við eigum að leggja meiri áherslu á Eyjaálfu en eitthvað annað? Og það eru auðvitað áhrif framleiðslunnar sjálfrar, hvort sem er innflutnings okkar eða útflutnings. Tökum sem dæmi vetni sem við eigum eflaust eftir að eyða bæði tíma og orku í að framleiða, vegna þess að það er einn af helstu orkugjöfum framtíðarinnar, eða áhrif vörunnar sem við erum að hugsa um að flytja inn. Við þekkjum mjög vel skógareyðingu sem fylgir sumum innflutningsvörum og spurning hvort við eigum ekki að taka tillit til þeirra þátta þegar við veljum, hvort sem það er í inn- eða útflutningi, viðskiptaaðila, vörutegundir og kynna þær o.s.frv.

Í þriðja lagi er það það sem ég kalla viðskipti við ábyrga framleiðendur. Það er jú vel þekkt, hvort sem það er fataframleiðsla, matvælaframleiðsla eða eitthvað annað, að mjög mörgum sögum fer af því hvernig varan er framleidd þegar kemur að réttindum verkafólks.

Annað atriði sem ég hef nóterað hjá mér líka er virðingin fyrir mannréttindum þar sem um er að ræða viðskiptalönd. Við munum öll umræðuna um Filippseyjar og fríverslunarsamninginn. Við höfum rætt Kína margoft. Nú þegar fréttir berast af mannréttindabrotum í Kína, í Qinghai í Norðvestur-Kína, minnumst við þessarar umræðu og minnumst þess um leið hvernig við umgöngumst lönd sem við höfum viðskiptasambönd við þar sem mannréttindi eru ekki í lagi.

Ég hef skráð hjá mér viðskipti sem þróunarsamstarf. Það er jú eitt af því sem lagt hefur verið upp með sem þátt í okkar loftslagsaðgerðum en við vitum að einnig hefur verið lagt upp með þetta í þróunarsamstarfi Íslands yfir höfuð, sérstaklega núna eftir að einkafyrirtæki voru dregin inn í það eða aðilar sem eru ekki hluti ríkisins í þessum efnum. Viðskipti sem þróunarsamstarf skipta okkur líka máli.

Síðan eru það nærsamfélögin. Við erum með viðskipti við lönd hér í kringum okkur, hvort sem það eru Norðurlöndin eða lönd í Norðvestur-Evrópu, sem við þurfum að þróa og styrkja í ljósi þess sem ég hef verið að segja, þó ekki væri nema vegna loftslagsmála eða umhverfismála.

Þarna erum við því að tala um jafnvægi milli inn- og útflutnings. Við erum að ræða um vistsporið. Við erum að ræða um viðskipti við ábyrga framleiðendur. Við erum að ræða um viðskipti sem þróunarsamstarf. Við erum að ræða um viðskipti þar sem virðing fyrir mannréttindum kemur inn í myndina og við erum að ræða um áherslu á nærsamfélög. Þegar við höldum áfram að þróa okkar viðskiptaumhverfi þá finnst mér þetta vera atriði sem við þurfum að leggja sérstaklega áherslu á.

Ég spyr utanríkisráðherra einfaldlega hvort hann sé mér sammála í þessu. Það má vel vera að ég hafi gleymt einhverju, en þetta er það sem mér finnst vera kjarnaatriðin í viðskiptastefnu næstu ára, jafnvel áratuga. Ég fagna þessari skýrslu, Áfram gakk! Það er ekki einasta framför að fá slíka skýrslu heldur er þarna verið að móta nokkuð heildstæða og jákvæða stefnu sem maður hefur séð brotakennda áður. Ég er ekki að segja að hún hafi verið brotakennd í sjálfu sér heldur hefur hún verið brotakennd þegar maður hefur verið að reyna að fá yfirsýn yfir hana. En hér er hún a.m.k. komin.

Það eru þó einstök lönd sem hægt er að ræða um í þessu samhengi. Við höfum jafnt og þétt fengið góðar skýrslur um Brexit og þar virðast mál vera á góðri hreyfingu í jákvæða átt. Við höfum með nýrri skýrslu lagt áherslu á aukin viðskipti við Grænland sem skiptir miklu máli. Við höfum átt í fortíðinni mikil viðskipti við Rússland og ég spyr, og það er þá önnur spurning til utanríkisráðherra: Er yfir höfuð hægt að hugsa sér viðskipti við Rússland, að öllu óbreyttu, hvort sem er af þeirra hálfu í heiminum eða vegna skilyrða sem við setjum fyrir slíkum viðskiptum? Sjáum við fyrir okkur aukin viðskipti við Rússland á næstu árum eða áratugum? Kanada er land sem ég hef oft undrað mig á að við höfum ekki náð meiri viðskiptasamböndum við en raun ber vitni, ég tæki það jafnvel fram yfir Eyjaálfu. Síðan er það ekki síst fríverslunarsamningurinn við Bandaríkin sem er okkur auðvitað mikilvægur ef hann kemst einhvern tímann á. Ég spyr einfaldlega: Hver væru næstu skref með nýjum stjórnvöldum í að þoka því máli áfram?

Þá eru komnar a.m.k. þrjár spurningar til hæstv. utanríkisráðherra tengdar hugleiðingum mínum um grunninn eða stoðirnar í utanríkisviðskiptum Íslands.