151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[17:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er svo hrifinn af þeirri aðferð hv. þingmanns að kalla fram svör við spurningum í andsvörum við eigin ræðu, að ég ákvað að verða við kallinu og taka þátt í því. Ég er hjartanlega sammála að málefni norðurslóða þarf að ræða mjög. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á að á vettvangi Norðurlandaráðs í heild sinni hafi þau ekki verið rædd en verði það. Ég veit að þetta hefur verið rætt í einstaka nefndum og þykist vita að forsætisnefnd hafi eitthvað rætt þetta. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á fund sem verður á mánudag þar sem þetta verður rætt áfram. Þetta hefur verið rætt í einstaka flokkagrúppum og auðvitað eru mjög ólíkar áherslur innan Norðurlandanna um margt í þessu. Hér hefur verið talað um netöryggismál. Á því ári sem liggur undir hér höfum við verið að ræða m.a. um njósnir Bandaríkjanna í Danmörku. Það kemur inn í þau mál sem við höfum rætt innan okkar raða og hvað norðurslóðir varðar og ásælni þar verðum við að muna að akkúrat á því tímabili var Bandaríkjaforseti að bjóðast til að kaupa Grænland. Það litaði töluvert umræðuna líka. Ég myndi því aldrei smætta hana niður í það að hún snerist bara um ásælni Kínverja heldur um norðurslóðir og ásælni, eins og hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á, stórveldanna þar. Þar höfum við sum, t.d. í flokkahópi Vinstri grænna, talað fyrir því að norðurslóðir verði lágspennusvæði, jafnvel engin hernaðarmannvirki, og talað fyrir kjarnorkuvopnalausum norðurslóðum því að kjarnorkuslys á því svæði gerir t.d. Ísland algerlega óbyggilegt og sennilega bara öll Norðurlöndin. Því miður hefur okkur ekki tekist að fá alla flokkahópa með okkur í þetta. En ég fagna áhuga á þessu og myndi telja t.d. að Norðurskautsráðið (Forseti hringir.) ætti að taka höndum saman um að hafa norðurslóðir lágspennusvæði og kjarnorkuvopnalaus.