152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem einnig hér upp vegna uppfærðrar þingmálaskrár ríkisstjórnarinnar en kannski sérstaklega til að leggja áherslu á það að heilbrigðisráðherra hefur hætt við áform sín um að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta, sem er gríðarlega mikilvægt mál sem við höfum beðið eftir lengi. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra ætlaði að leggja málið fram og gerði það. Svo var það svæft í nefnd af hennar eigin ríkisstjórn. Þetta mál virðist ekki heldur ætla að líta dagsins ljós.

Forseti. Við hljótum að krefjast þess að mál sem ríkisstjórnin er búin að lofa að komi hér fram — og hún hefur fellt mál Pírata, sama mál, með þeim rökum að heilbrigðisráðherra sé að fara að leggja fram mál. Þetta er í annað skipti sem það mál er ekki að koma fram. Það er hópur fólks í samfélaginu sem líður fyrir þetta. Þetta er mikilvægt skaðaminnkandi úrræði. Það er fólk að deyja af of stórum skömmtum vímuefna. (Forseti hringir.) Fólk er að verða fyrir varanlegum skaða út af þessari skaðlegu refsistefnu. (Forseti hringir.) Ég mótmæli því að þetta mál sé ekki lengur á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og krefst þess að fá svör við því hvers vegna svo er.